149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:40]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Mig langar aðeins að spyrja út í Landsrétt. Ég veit að það mál hefur verið aðeins hér til umræðu áður. Það sem mig langar til að beina sjónum mínum sérstaklega að og spyrja hæstv. ráðherra um er hvort það sé búið að gera einhvers konar áætlun eða gera tilraun til að meta þann kostnað sem fellur til eða gæti fallið til, svo maður tali nú varlega, vegna þeirra erfiðleika sem hafa verið varðandi skipun réttarins. Þá á ég við bæði hugsanlega útafstandandi mál vegna skipunar dómara í upphafi og eins hvort liggi fyrir í slíkri áætlun eða tilraun til áætlunar kostnaður við endurflutning mála, hugsanlegan kostnað við að þurfa að bæta við dómurum við réttinn o.s.frv. Er búið að leggja eitthvert frummat á það hver slíkur kostnaður geti orðið eða líkur standa til að geti orðið?

Þá vík ég kvæði mínu í kross í orðsins fyllstu merkingu og fer yfir í kaflann um trúmál og samskipti við kirkjuna. Nú hafa náttúrlega orðið miklar breytingar á aðild að þjóðkirkjunni á undanförnum árum. Það standa yfir samningar, að mér skilst, og eins og tekið er fram hérna er stefnt að því að þeim ljúki á þessu ári. Ég spyr, líka vegna þess að það liggur fyrir í ráðuneytinu skýrslubeiðni frá undirrituðum og fleiri þingmönnum (Forseti hringir.) um tengsl ríkisvaldsins við kirkjuna umfram önnur trúfélög, hvort það sé skynsamlegt á þessum tímapunkti að loka samningum við (Forseti hringir.) þjóðkirkjuna um þessi málefni.