149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum enn þá að tala um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og nú erum við komin í dómsmálin, Mig langar að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um málefni persónuverndar og dómstóla. Ég sé að það á að efla Persónuvernd, sem er mjög gott, en ég vil spyrja í sambandi við dómstóla og tölvukerfi dómstóla og birtingu þeirra á dómum. Þar er enn verið er að birta viðkvæmar persónuupplýsingar, bæði í eldri málum og nýlegum, sem er óskiljanlegt vegna þess að þarna er um skýlaust brot á persónuverndarlögum að ræða. Þarna eru því miður mjög viðkvæmar persónuupplýsingar, ekki bara um tjónþola eða þá sem hafa framið afbrot heldur líka vitna sem hafa þurft að gefa upp upplýsingar um sig. Ég spyr dómsmálaráðherra hvort það séu ekki í framtíðinni áætlaðir fjármunir til að koma þessu í lag.

Síðan langar mig líka að vita um gjafsóknir. Ég fann hvergi staf um gjafsóknarmál. Við vitum að fjársterkir aðilar standa miklu betur að vígi, einstaklingar sem lenda í t.d. í umferðarslysum og þurfa að berjast við sterk tryggingafélög. Fólk sem er á venjulegum launum á bara ekki möguleika að berjast við svoleiðis risa nema fá gjafsókn. En mér skilst að það sé orðið, liggur við, sjaldgæfara að fá gjafsókn en margt annað. Það sé mjög erfitt að eiga við það. Ég spyr hvort það eigi ekki að auka þar verulega þannig að allir geti nýtt rétt sinn fyrir dómstólum.