149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:48]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Hvað varðar birtingu dóma og hvaða upplýsingar þar er að finna var frumvarp sett inn á samráðsgátt sem er núna til sérstakrar skoðunar hvað nákvæmlega verður gert með og hvernig mun líta út. Dómstólasýslan hefur kallað eftir því að verklag á milli dómstiga verði samræmt og ég geri ráð fyrir því að frumvarp þar sem m.a. er snert á þessu komi inn í þingið fyrir frest. Það er alls ekki í lagi þegar það gerist að einhverjar upplýsingar sem alls ekki eiga að vera til birtingar birtast. Sem betur fer eru þau mál ekki mörg en þau eiga auðvitað að vera núll.

Það er gert ráð fyrir ákveðnum fjármunum í þessi tæknimál dómstólanna, þ.e. þessa gátt og fleira. Varðandi gjafsóknina skilst mér að við séum nýbúin að hækka þau viðmið.