149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þessi svör. Það er gleðiefni ef það er búið að hækka viðmið gjafsóknar og veitir ekki af.

Síðan langar mig að átta mig á, í sambandi við löggæslumál sem mikið hefur verið talað um, sýnilegri löggæslu. Hún er því miður mjög takmörkuð. Við ræddum þetta í salnum um daginn og það var eiginlega bara einn maður sem sagði að sýnileg löggæsla væri ekki takmörkuð, hv. þm. Brynjar Níelsson. Hann virðist sjá lögreglumenn á mörgum stöðum. En ég sé þá aldrei og mér blöskrar það. Síðan er það staðan í útköllum. Þurfum við ekki líka sjá til þess að það séu alltaf alveg örugglega tveir lögreglumenn í bifreiðum þegar kallað er út, sérstaklega úti á landi?

Síðan vil ég enda á Landhelgisgæslunni og skemmtiferðaskipum, út af skemmtiferðaskipinu sem strandaði í Noregi. Hvernig er staðan á þeim málum hér?