149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:50]
Horfa

dómsmálaráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Hér voru nefnd örfá lauflétt mál sem ég fæ mínútu til að svara.

Það voru sem sagt rýmkuð viðmið varðandi gjafsóknir í reglugerð, til að hafa orðalagið alveg rétt hvað það varðar.

Um sýnileika löggæslunnar liggur fyrir að við höfum bætt verulegum fjármunum í löggæslu almennt en sitt sýnist hverjum um hversu sýnileg lögreglan er. Sumir fagna því þegar hún er ekki sýnileg. En ég nefndi aðeins áðan að það þarf líka að taka tillit til þess hvernig löggæsluþörfin hefur breyst. Við höfum fjölgað starfsmönnum lögreglunnar sem eru ekki lögreglumenntaðir, sérfræðingum á ýmsum sviðum sem koma að rannsóknum sakamála og öðru starfi lögreglunnar. Þetta byggir bara á þörfum og forgangsröðun, eftir því hvaða verkefni lögreglan þarf að sinna.

Varðandi Landhelgisgæsluna, á þremur sekúndum, er þetta að sjálfsögðu eitthvað sem við þurfum verulega að horfa til. Við erum að endurskoða og meta þessa þörf Landhelgisgæslunnar, (Forseti hringir.) hvar þörfin sé mest, og erum að fá viðbótarfjármuni í þann málaflokk. Það er okkar að forgangsraða eftir þörf.