149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:57]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég ætla fyrst að ræða kolefnisgjald. Kolefnisgjald hækkaði um 50% á síðastliðnu ári, hefur þrefaldast frá 2010 og enn eru uppi ráðagerðir stjórnvalda um að hækka það á næstu misserum. Ég ætla að ræða kolefnisgjaldið í tengslum við útgerðarfyrirtækin.

Í Danmörku og Þýskalandi eru útgerðarfyrirtæki undanþegin eldsneytissköttum og í Noregi fá þau kolefnisgjald endurgreitt. Hér aftur á móti eru útgerðarfyrirtækin látin greiða þennan skatt eins og margir aðrir, en útgerðarfyrirtækin hafa frá 1990 farið úr 246.000 tonnum niður í 130.000 tonn á árinu 2017. Þau hafa sem sagt minnkað notkunina um 54% og fyrir löngu uppfyllt Parísarsamkomulagið. Hverju veldur að stjórnvöld leggi samt sem áður kolefnisgjald á atvinnugrein sem hefur jafnt og þétt lækkað sitt fótspor? Ég spyr hvort þetta gjald, kolefnisgjald, nái tilgangi sínum með svona vinnubrögðum, þ.e. varðandi kolefnisgjald á útgerðarfyrirtæki og fiskiskipin, sem hafa hagrætt mikið í sínum kolefnisútblæstri eins og ég nefndi.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er: Hvernig stendur á því að við erum að leggja kolefnisgjald á þá atvinnugrein sem best hefur staðið sig í að lækka kolefnisfótspor sitt sé miðað við árið 1990 eins og ég nefndi? Hefur árangurinn af álagningu kolefnisgjalds verið mældur og stendur til að gera einhverja rannsókn á því?