149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[20:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að kolefnisgjaldið hefur verið hækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar um 50%, ef ég man tölurnar rétt. Í upphafi árs 2018 og síðan 10% í upphafi 2019 og fyrirhugað að hækka aftur um 10% 2020. Að mínu viti er þetta mikilvægt stjórntæki til að stuðla að því að minna sé notað af kolefniseldsneyti, sama í hvaða geira það er. Það er virðingarvert og mjög jákvætt mál að útgerðinni hafi tekist að draga úr sinni losun, m.a. vegna þess að sóknin hefur breyst og það er hið besta og jákvæðasta mál. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að þetta gjald sé einfaldlega lagt jafnt á þessa mismunandi geira. Hvað varðar ávinninginn þá hefur hann ekki verið mældur, en við erum við endurskoðun aðgerðaáætlunarinnar að vinna að því að reyna að meta hverju kolefnisgjald geti skilað líkt og gert hefur verið sums staðar erlendis.