149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég tel mjög mikilvægt að við rjúkum ekki til og leggjum á skatt, eins og þetta kolefnisgjald, án þess að baki liggi neinar rannsóknir eða að rannsóknir séu fyrirhugaðar á því hverju það skilar, hvort það skili þeim árangri sem til er ætlast, heldur sé bara enn einn nýr skattur. Ég fagna því ef ráðherra hefur áætlanir eða fyrirætlanir um að það verði rannsakað hvort þetta beri einhvern árangur. Ég er búinn að nefna árangur hjá útgerðinni sem hefur með hagræðingu og fjárfestingu lækkað sitt kolefnisfótspor svona gífurlega mikið.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um miðhálendisþjóðgarð sem hann nefndi hér, fyrirætlanir um hann. Ég ætla að spyrja hann að því hvort það sé fyrirætlun hans að koma fram með þetta frumvarp í andstöðu við fjölda sveitarfélaga sem telja áformin ganga inn á sitt skipulagsvald og færslu ákvarðanatöku frá nærsamfélögunum til borgaranna.