149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:02]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Rétt til að klára þetta með kolefnisgjaldið tel ég það mjög mikilvægan hvata, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga, til að skipta úr kolefniseldsneyti yfir í annað minna mengandi eldsneyti. Varðandi miðhálendisþjóðgarð þá er hann fyrirhugaður samkvæmt stjórnarsáttmála. Það er ekki rétt að með honum sé verið að færa völdin úr héraði og til borgarinnar. Það er í fyrsta skipti sem ég heyri það og engin áform um slíkt, enda er það módel eða líkan sem hefur verið notað til þess að stjórna Vatnajökulsþjóðgarði dreifstýrt. Þar er aðkoma heimamanna er rík og farið hefur fram heilmikið samtal við sveitarfélögin eftir að þessi vinna fór í gang í fyrra. Ég vonast til að það muni skila því að fleiri og fleiri sveitarfélög sjái sér hag í þessu frekar en hitt.