149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:03]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir greinargóða kynningu og kaflann í fjármálaáætlun sem um margt er góður. Mig langar að nota tækifærið til að eiga aðeins orðastað við ráðherrann um málefni hafsins, sem koma við sögu hér og þar í fjármálaáætlun. Þar er lögð áhersla á hafréttarmál, þ.e. réttindi Íslendinga til yfirráða yfir eigin auðlindum. Það er talað um hagsmuni þjóðarinnar á sviði sjávarútvegs og málefni hafsins án þess að það sé nánar skilgreint. Það er talað um sjálfbærar veiðar og tekið fram að málefni hafsins séu á forræði utanríkisráðuneytisins í samvinnu við fagráðuneyti og er þar væntanlega vísað til sjávarútvegsráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis.

Á bls. 184 í fjármálaáætlun kemur fram að nú fari fram samningaviðræður um nýjan samning um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja. Þessar samningaviðræður eru sagðar varða, með leyfi forseta, „stórfellda hagsmuni á úthafinu og sjálfbæra nýtingu auðlinda þar“. Það krefjist öflugrar hagsmunagæslu á alþjóðavettvangi til að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar á sviði sjávarútvegs og málefna hafsins til margra ára.

Þetta vekur spurningar. Við hvaða hagsmuni er átt? Hvernig eru þeir skilgreindir? Er átt við t.d. hagsmuni úthafsveiðiflota íslenskra útgerðarfyrirtækja? Felast hagsmunir þjóðarinnar í nýtingu auðlinda úthafsins víða um heim? Er hægt að leggja að jöfnu hagsmuni örfárra útgerðarfyrirtækja og hagsmuni þjóðarinnar? Hefur verið mótuð stefna í þessum málum? Og ef svo er, hefur hún verið kynnt fyrir Alþingi eða í utanríkismálanefnd?