149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna, sem mér sýnist vera ekki síður á málefnasviði utanríkisráðherra og jafnvel sjávarútvegsráðherra, en mér er ljúft og skylt að svara henni eftir sem áður þar sem málefni hafsins eru náttúrlega mjög mikilvæg þegar kemur að umhverfismálum og auðlindamálum.

Í málefnaáherslum Íslands hvað varðar einmitt þetta mál hefur verið lögð áhersla á að hagsmunir snúi bæði að nýtingu og vernd, þannig að þarna er hugað að báðum þeim þáttum.

Þingmaðurinn spyr líka hvort mótuð hafi verið stefna. Ég skildi hv. þingmann þannig að það væri í málefnum hafsins almennt. Sú vinna hefur verið í gangi á milli fjögurra ráðuneyta en er ekki lokið og þess vegna hygg ég að hún hafi ekki verið kynnt hér á þingi, alla vega ekki meðan ég hef verið ráðherra. Þetta er hins vegar málefni sem ég tel brýnt, líkt og hv. þingmaður gerir, og vonast til þess að við getum séð móta fyrir landi innan skamms í þessum málum, þó svo að ég geti ekki lofað neinu um það hvenær það yrði. En það hefur verið í gangi vinna við skýrslu á milli þessara ráðuneyta um allnokkuð langan tíma og nokkuð löngu áður en ég kom inn í ráðuneytið líka.