149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:09]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð hans og verð að segja að ég er stolt af því að styðja ríkisstjórn sem leggur jafn mikla áherslu á loftslagsmál og umhverfismál og raun ber vitni. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta eru sannarlega mál málanna og mest krefjandi verkefni okkar allra til framtíðar litið. Ég fagna því líka hve mikil áhersla er almennt lögð á rannsóknir, nýsköpun og vísindi í fjármálaáætluninni. Þar held ég að þurfi að tengja það mjög umhverfismálunum því að við þurfum að sýna fram á auknar lausnir þegar kemur að umhverfisvandanum. Þá eiga vísindamenn, rannsóknir og nýsköpun að vera lykillinn að því.

Ég hafði líka hugsað mér að nefna aðeins náttúruvána eins og rætt var um áðan. Eitt er fjármagnið sem örugglega mætti setja enn meira í, en þá ekki síður vil ég nefna ákveðna samþættingu og samstarf á milli ákveðinna stofnana. Mig langaði til að nota tækifærið og nefna það, vegna þess að nú hefur Mannvirkjastofnun verið færð úr umhverfisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið, mikilvægi þess að sú stofnun sé vel innvikluð í þá vöktun sem á sér stað varðandi náttúruvá, það að við séum meðvituð um hvaða breytingar þarf að gera varðandi skipulag, uppbyggingu ýmissa mannvirkja og annað þess háttar þegar kemur að þeim breytingum sem við sannarlega stöndum frammi fyrir. Þó að við viljum öll að sjálfsögðu draga úr útblæstri og minnka mengun þá stöndum við samt frammi fyrir miklum breytingum. Ef ráðherra gæti komið aðeins inn á það.

Svo langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra út í aðgerðir okkar til að ná árangri í loftslagsmálum. Ég tel að við þurfum að vinna markvisst að því að vinna með atvinnulífinu og félagasamtökum. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að hægt sé að virkja atvinnulífið enn frekar inn í samstarf með okkur um að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í Parísarsáttmálanum?