149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Aðeins í framhaldi af svari mínu áðan vil ég nefna að Veðurstofan hefur unnið að áætlun um rannsóknir á náttúruvá sem tengist eldgosum, sem við erum með núna til skoðunar í ráðuneytinu og mér líst mjög vel á.

Varðandi samstarf og samþættingu rannsókna tek ég undir það algjörlega með hv. þingmanni. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði, bæði til þess að nýta fjármagnið betur en líka þekkinguna. Sú vinna sem hefur verið leidd af Veðurstofu Íslands hvað varðar skýrslugerð og samantekt á áhrifum loftslagsbreytinga á náttúru og samfélag á Íslandi, skýrsla sem kom út í fyrra, er mjög gott dæmi um það. Ég er núna með þessi mál svolítið til skoðunar heildstætt til að reyna að ná betur utan um hvar verið er að gera rannsóknir og hvernig væri hægt að horfa á þetta í aðeins stærra heildarsamhengi. Þannig að ég tek innilega undir þetta með hv. þingmanni.

Hvað varðar aðgerðir til að ná árangri í loftslagsmálum nefndi hv. þingmaður atvinnulíf og félagasamtök. Við höfum sett á fót eða komið saman samstarfsvettvangi með atvinnulífinu, sem ég á von á að verði kynnt innan skamms, og ég bind miklar vonir við að þar verði hægt að vinna að því að setja sameiginleg markmið og að atvinnulífið komi með okkur stjórnvöldum m.a. inn í markmið um kolefnishlutleysi árið 2040. Ég hef átt samtöl við þau fyrirtæki sem valda hvað mestri mengun á Íslandi og þau hafa tekið vel í að koma inn í svona vinnu. Á sama hátt tel ég að samstarf við félagasamtök (Forseti hringir.) sé mjög mikilvægt og það er eitthvað sem við erum líka að vinna að í gegnum mismunandi áætlanir.