149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. 19, 29, 35 og 70 eru tölur sem koma fram í þeim fjármálaáætlunum sem hafa komið út hingað til og standa fyrir fjölda þeirra skipta sem loftslagsmál eru nefnd í fjármálaáætluninni. Það er greinilega viðbót eftir hverja fjármálaáætlun og tvöföldun frá þeirri síðustu. Peningarnir sem eiga að fara í þessi mál sýna svipaðan áhuga, sem er gott og vel. Við höfum kannski oft talað um hversu miklu stærra vandamálið er en þessi fjárframlög gera ráð fyrir, ég hef áhyggjur af því að vandamálið sé stærra.

Mig langaði til að byrja með að koma aðeins inn á orkuskiptin með hæstv. ráðherra. Ég fjallaði aðeins um þetta með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um skýrsluna um milljón tonn, og hvernig þar eru lagðar til aðgerðir til að ná alla vega 250.000 tonnum, bara með orkuskiptunum á bílunum. En hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vísaði yfir á hæstv. umhverfisráðherra hvað það varðar, af því að það er jú aðgerðaáætlun. Samt eru viðmiðin og markmiðin undir samgöngukaflanum, sem mér finnst dálítið ruglandi. Þess vegna spyr ég hæstv. umhverfisráðherra um þetta.

Markmiðið eins og það er sett fram — þá í samgöngukaflanum, þó að það sé undir aðgerðaáætlun hæstv. umhverfisráðherra — er hækkun frá 9% 2020, í hlutfalli vistvænna bíla, í 10% 2024, 1%. Hæstv. ráðherra samgangna sagði að þetta væri líklega villa. Kannski getur hæstv. umhverfisráðherra frætt mig aðeins um hvað sé rétt hérna.