149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég verð að fá að byrja á því að fagna talnaspekinni sem hér er borin á borð fyrir þingheim, hún er mjög skemmtileg. Ég vil bæta því inn í þessa talnaspeki að árið 2010 komu fréttir um loftslagsmál 164 sinnum fyrir í fjölmiðlum en 997 sinnum árið 2018. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Ég spyr mig líka að því hver þversumman af þessum tölum sé en það er annað mál.

En varðandi fjárframlögin vil ég taka það skýrt fram að það eru náttúrlega meiri framlög til loftslagsmála en koma fram í kaflanum um umhverfismál. Þar má nefna allt það sem snýr að almenningssamgöngum o.s.frv. Þannig að til nánustu framtíðar, ef borgarlínan yrði bara tekin, er það náttúrlega mjög stórt verkefni sem getur ekki annað en talist til tekna í þeim flokki.

Varðandi orkuskiptin verð ég að viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega tölurnar sem miðað er við í þingsályktuninni fyrir orkuskiptaáætlunina, þá ekki á því tímabili sem verið er að tala um hér heldur er þar miðað við 2030, hvort það voru 40% frekar en 50%, ef ég man rétt.

Það sem við erum að miða við í aðgerðaáætluninni er að útblástur frá vegasamgöngum verði komin niður, miðað við árið 2018, um 50% árið 2030, þ.e. að lækka þetta um helming á því árabili. Það eru um 35% miðað við 2005, ef ég man þetta rétt. Það er það sem við erum að horfa á í þessu samhengi og ég minni á að þarna er kannski stærsti bitinn fyrir okkur hvað varðar beinar skuldbindingar Íslands til að ná árangri.