149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:22]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að tala eins hratt og ég get þannig að ég geti hækkað þá tölu sem hér var nefnd. Varðandi kostnaðarmat og ávinning, líkt og kom fram þegar við lögðum aðgerðaáætlanir fram í fyrrahaust, vissum við vel að það átti eftir að ráðast í þessar greiningar sem nú er verið að vinna að. Við stefnum að því að gefa út nýja áætlun, uppfærða áætlun, síðar á árinu. Þetta skiptir miklu máli og ég tek algjörlega undir það.

Þær tölur sem ég nefndi hér áðan varðandi orkuskiptin koma reyndar fram í núverandi aðgerðaáætlun, svo að það sé tekið fram. Við erum að vinna að þessu núna, m.a. með kolefnisbindinguna, þannig að þetta kemur smátt og smátt, fyllist betur upp í þær eyður sem hv. þingmaður nefndi.