149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna tækifærinu til að ræða málefnasviðið umhverfismál við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra við umræðu um fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024, málefnasvið sem vaxandi áhersla er á.

Áherslur í málaflokkunum fimm sem undir málefnasviðið heyra snúast að miklu leyti um verndun, vöktun og uppbyggingu á gróður- og jarðvegsauðlindinni og hafa þar með áhrif á losun kolefnis og aukna bindingu og styðja markmið Íslands í loftslagsmálum og alþjóðleg markmið um kolefnishlutleysi landnýtingar.

Viðfangsefnin í málaflokknum eru verðug sem og áskorunin að flétta sem flest markmið uppbyggingar, verndar og nýtingar saman í útfærslu verkefnanna sem fyrir liggja. Þetta á t.d. við um markmið um að auka árlegt umfang og uppgræðslu, endurheimt vistkerfa og nýskógrækt. Þarna tel ég samstarf við umráðamenn lands og bændur í öllum búgreinum mikilvægt og ég vil sérstaklega vekja athygli á því tækifæri sem felst í að standa við þá samninga sem þegar hafa verið gerðir milli Skógræktarinnar og bænda. Það hafa verið gerðir samningar við skógarbændur um fjórfalt meiri skógrækt en nú fer fram hjá þeim. Þar er allt tilbúið; land, starfskraftar, skipulag og áætlanir sem stjórnvöld hafa nú þegar fjárfest í. Þessir bændur hafa með öðrum orðum skuldbundið sig til að taka ákveðinn hluta af landi í sinni umsjá til skógræktar.

Ég vil spyrja: Gæti verið skynsamlegt að staldra við og skoða hvort jafnvel sé hægt að ná fleiri markmiðum á þessu landi samhliða uppbyggingu timburskóga, eins og markmiðum um kolefnisbindingu, beitarskógrækt, útivist og loftslagsvænni landbúnað? Og eins: Væri hægt í sama augnamiði að hyggja betur að umhirðu (Forseti hringir.) ungskóga?

Og loks aðalspurningin: (Forseti hringir.) Gefur fjármálaáætlun svigrúm til hækkunar framlaga til samningsbundinnar skógræktar á lögbýlum?