149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:25]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Til að svara síðustu spurningunni fyrst er svarið við henni já. Hvað varðar þau atriði sem hv. þingmaður kom inn á og lúta að markmiðum samhliða skógrækt, öðrum markmiðum en því að stunda skógrækt sem slíka, sem geta verið útivist, geta verið út frá líffræðilegri fjölbreytni, geta verið út frá efnahagslegum forsendum o.s.frv., þá vil ég bara segja: Ó, já. Svo sannarlega er það mikilvægt að huga að fleiri markmiðum en einhverju einu þegar kemur að aðgerðum, hvort sem það er í skógrækt, landgræðslu eða endurheimt votlendis. Ég tel reyndar að þetta sé lykilatriði. Það er ekki aukaatriði heldur lykilatriði að huga að þessum málum.

Það er mikið fjallað um þetta m.a. á erlendum vettvangi. Ég er nýkominn af umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem ég lagði ríka áherslu á akkúrat þetta atriði. Við verðum að horfa á aðgerðir í umhverfismálum ekki bara út frá einhverju einu markmiði eða markmiði einhvers eins alþjóðasamnings heldur ná að samtvinna aðgerðir með þeim hætti að þær sinni mismunandi markmiðum, mismunandi umhverfisáskorunum. Þannig að ég tek innilega undir þetta atriði hjá hv. þingmanni.