149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:27]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og held að með þessari samtvinnun getum við einmitt náð bestri nýtingu fjármuna.

En að öðru. Á síðasta ári voru samþykkt lög um skipulag haf- og strandsvæða. Það er því eðlilegt að eitt af verkefnunum undir stjórnsýslu umhverfismála sé vinnsla strandsvæðisskipulags fyrir Austfirði og Vestfirði. Mig langar að spyrja hvernig þeirri vinnu miði og hvort fjármagn sé tryggt til að vinnunni ljúki á næsta ári.

Meðal annarra verkefna eru aukin landgræðsla, mótun þjóðgarðs á miðhálendinu og aukinn ávinningur nærsamfélaga af friðlýstum svæðum. Í því samhengi langar mig að spyrja sérstaklega um tækifærin sem gætu falist í nágrannavörslu, eins og ég vil kalla það, þ.e. að gerðir yrðu samningar við íbúa í strjálbýli um hlut af landvörslu á friðlýstum svæðum. Þannig verkefni gætu skilað miklum árangri fyrir báða aðila og ávinningi. Eru einhver slík verkefni í útfærslu?