149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:28]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Varðandi skipulag haf- og strandsvæða er sú vinna í þann veg að fara í gang. Það er búið að skipa í allar þær nefndir og ráð sem á að skipa í. Og ef ég man þetta rétt held ég að fyrsti sameiginlegi fundur svæðisráðanna á Austfjörðum og Vestfjörðum sé núna í byrjun apríl. Það er búið að tryggja fjármagn til að þetta geti klárast. Tímarammann á því er ég ekki 100% með á hreinu en get komist að því fyrir hv. þingmann.

Varðandi friðlýstu svæðin og það sem hv. þingmaður kallaði nágrannavörslu, sem er fallegt orð, er það mjög áhugaverð nálgun sem ég held að við séum í rauninni í dag að sinna að vissu leyti. Oft eru það heimamenn sem sinna landvörslu á friðlýstum svæðum, sérstaklega þegar til verða heilsársstörf en líka þegar um er að ræða sumarstörf eða slíkt þegar um háannatíma er að ræða. En mér finnst að það væri mjög áhugavert að skoða (Forseti hringir.) þetta nánar, ekki síst í tengslum við verkefni sem við erum að vinna að núna um náttúruvernd með bændum.