149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:32]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ráðherra mun reyna að sitja á peningunum eins og hann mögulega getur ef kemur til niðurskurðar í ríkisfjármálum.

Varðandi spurninguna um samstarf við bændur um loftslagsvænan landbúnað er hér um að ræða afskaplega spennandi verkefni. Við erum búin að vera að þróa verkefni með sauðfjárbændum sem lýtur að því í fyrsta lagi að aðstoða við að greina hvað hvert bú er að losa og benda þá á leiðir til að ná árangri í að draga úr losun. Síðan er meiningin að reyna að þróa hvatakerfi til þess að bændur geti komið inn í kolefnisbindingu í auknum mæli. Við vonumst til þess að geta klárað að þróa og móta þetta verkefni á þessu ári. Þetta er virkilega spennandi og skemmtilegt að takast á við.

Það er rétt að landbúnaðinn er stór geiri á heimsvísu sem losar mikið. Ég man ekki töluna á Íslandi, hvort hún er 10–15% eða hvað það er. Landbúnaðurinn er hins vegar sá geiri þar sem einna erfiðast er að draga úr losun. Það er ekki síst út af iðragerjun í kvikfénaði. Ég bind hins vegar vonir við að hægt verði að ná auknum árangri í því með bættri fóðrun.

En þær tölur sem hv. þingmaður nefnir — það sem ég get nefnt er að árið 2030 erum við samkvæmt aðgerðaáætluninni að vonast til þess að samdrátturinn hafi orðið um 10% á því tímabili, sem eru þá 10 eða 12 ár.