149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:36]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Við erum í samstarfi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um að hefja vinnu við að móta tillögur að því hvernig megi nálgast fráveitumál betur á Íslandi. Það var átak í gangi, ef ég man rétt á árunum 1995–2007 eða 2008, þar sem var sérstakur stuðningur frá ríkinu til þeirra mála. Við erum að setja vinnu í gang þessa dagana við að móta hvernig megi koma þeim málum í betri farveg, líkt og nefnt er í stjórnarsáttmála. Ég held þetta snúi í fyrsta lagi að þeim svæðum þar sem er eiginlega ekki búið að gera neitt og í öðru lagi að þeim svæðum þar sem við erum með langsamlega stærstu fráveiturnar og þá hvernig við getum reynt að nýta það frárennsli sem er í þeim fráveitum sem áburð í anda hringrásarhagkerfisins, áburð annaðhvort í landbúnaði eða til landgræðslu.