149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir hans innlegg í umræðuna í kvöld um fjármálaáætlun næstu fimm ára. Þetta er afskaplega metnaðarfullt hjá ráðherra og ánægjulegt að sjá hversu föstum tökum við ætlum að taka þessa vá sem að okkur steðjar núna, sem er loftslagsváin.

Ég ætla að lesa upp smávegis, með leyfi forseta:

„Það verður að virða mannkyni til afsökunar að margt af því tjóni sem við höfum unnið jörðinni var gert í ógáti. Vanþekking hefur þó langt í frá alltaf verið Íslendingum til afsökunar, en það var þó engu að síður tilfellið þegar við ræstum fram votlendi víða um land.

Á árunum eftir stríð og talsvert eftir það fengu bændur greitt fyrir að þurrka upp votlendi og auðvitað fórum við Íslendingar offari“ — eins og gengur og gerist.

Mig langar að segja ykkur það að nú er áætlað að á Íslandi sé lengd skurða um 34.000 km samanlagt. Við höfum þurrkað upp hvorki meira né minna en 4.200 km² af landi. Talið er að þetta valdi 73% af allri þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað á Íslandi í dag.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hversu hratt og vel hann hyggst ganga fram í því að reyna að moka ofan í þessa skurði á ný. Er eitthvert framtíðarplan, eitthvað áætlað sérstaklega á ári innan rammans og hversu mikið? Hversu langan tíma telur ráðherra að það taki þangað til við lokum síðasta skurðinum?