149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kemur inn á mjög mikilvægt mál sem er votlendið og endurheimt þess, að moka aftur ofan í skurðina sem voru grafnir á sínum tíma. Þá erum við ekki að tala um alla skurði, við erum að tala um sérstaklega þá skurði, og nóg er til af þeim, sem eru í landi sem ekki er verið að nota.

Hér er spurt hversu hratt og vel þetta eigi að gera. Nú vinna Landgræðslan og Skógræktin sameiginlega að áætlun til þriggja ára um þetta málefni og það mun væntanlega koma í ljós núna í apríl eða maí hvernig þær áætlanir líta nákvæmlega út. Ég vil nefna það sérstaklega, af því að þingmaðurinn kemur inn á þetta, að það losna að meðaltali 23 tonn á hektara, ef ég man þessar tölur rétt, úr þessum framræstu mýrum. Um leið og við mokum ofan í þessa skurði þá komum við að mestu leyti í veg fyrir þessa losun. Þannig að þetta er skjótvirk aðgerð sem skilar árangri strax. Ef ég man þetta rétt skilar þetta nettó um 20 tonnum á hektara. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Hvort sem þetta heyrir undir skuldbindingar landa eða ekki þá hefur þetta með það að gera hversu mikið af koltvísýringi fer út í andrúmsloftið. Á endanum gerir náttúran ekki mun á því hvort þær aðgerðir heyra undir beinar skuldbindingar landa eða ekki.

Mín áform lúta að því að vinna að þessu hratt og örugglega en samt þannig að það byggi á góðum og gildum vísindum og rannsóknum. Við erum komin kannski einna styst í þessu miðað við landgræðslu og skógrækt. Þess vegna geri ég ráð fyrir því að þetta muni fara eilítið hægar af stað en þeir þættir því að við erum ekki eins vel undirbúin en með meiri þunga þegar líður á næstu ár.