149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Fyrst ég fæ tækifæri til að koma aftur upp ætla ég að halda áfram með kolefnisgjaldið, segja aðeins meira um fiskvinnsluna og útgerðarfyrirtækin og framlag þeirra til að fækka kolefnisfótsporum sínum. Þessi atvinnugrein hefur með hagræðingu og í margvíslegum efnum minnkað útblástur gróðurhúsalofttegunda um 54% frá 1990 og þannig uppfyllt Parísarsamkomulagið og gott betur. Þetta hefur atvinnugreinin gert t.d. með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja, almennri hagræðingu í greininni, sem allir þekkja, fjárfestingum í nýrri tækni og nýjum skipum. Atvinnugreinin nýtur í öllum samkeppnislöndum okkar sérstakrar undanþágu á slíkum sköttum sem kolefnisgjaldið en er sköttuð hér með gjöldum sem ekki liggur fyrir hvort skili raunverulegum árangri. Það eru engar rannsóknir að baki um að skatturinn skili raunverulegum umhverfislegum árangri heldur er þetta bara enn einn skatturinn. Þetta vildi ég nefna fyrst ég fékk tækifæri til þess.

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um fleiri atriði, sem varða drauganet í sjó. Nú er alþekkt að í hafinu umhverfis landið er mikið af netum sem valda ótímabærum dauða fjölda sjávardýra, eins og við höfum séð mörg sorgleg dæmi um í fjölmiðlum og á netinu. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi gert áætlanir um aðgerðir til að fækka þeim ófögnuði, hvort á vegum ráðuneytisins sé aðgerðaáætlun um það og í hverju er hún fólgin ef svo er?