149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:46]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að svara þessu frekar með kolefnisgjaldið, ég gerði það áðan. Ég tel mig vera búinn að svara þeim fyrirspurnum hv. þingmanns og nota því tímann frekar í seinna atriðið sem hv. þingmaður nefndi og snýr að drauganetum í sjó, sem ég held að sé mjög verðugt að taka aðeins til umræðu.

Nú hafa öflug félagasamtök eins og Blái herinn og fleiri verið í strandhreinsun, sem tengist því að einhverju leyti. Mig minnir að ég hafi séð síðast í gær í fjölmiðlum frétt af einhverjum kappa í róðri sem var að tína upp net sem þessi. En þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða heildstæðar og þess vegna var í plastaðgerðartillögum sem ég fékk til mín frá starfshópnum sem ég skipaði í fyrra m.a. komið inn á þau atriði og ákveðnar tillögur lagðar fram. Við erum að vinna úr þeim tillögum núna og ég á von á því að við munum á allra næstu mánuðum, vonandi í næsta mánuði, leggja fram þá áætlun.

Það er líka ánægjulegt að segja frá því að í þessari nýju fjármálaáætlun kemur inn nýtt fjármagn sem snýr að hinu svokallaða hringrásarhagkerfi. Þar er m.a. að tekist á við neyslu og sóun, plastmengun, matarsóun og fleiri atriði sem tengist því sem hv. þingmaður kom inn.