149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:48]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar. Ég fagna því auðvitað ef stjórnvöld eru að skoða þetta mál heildstætt og því að vænst sé einhverra aðgerða af hálfu stjórnvalda í þeim efnum, af því að við höfum séð afleiðingarnar af þessu. Svo má líka minnast á forvarnir í því sambandi, þ.e. að hafa meira eftirlit með þeim sem varpa þessu eða missa frá sér.

Ég ætla einnig að minnast á geislamengun í sjó. Það er alþekkt að í kalda stríðinu sökktu stórveldin slíkum úrgangi, geislaúrgangi, í hafið lítt vörðum. Þetta er tímasprengja, tifandi tímasprengja. Við erum fiskveiðiþjóð og þess vegna spyr ég: Hvernig er staðið að vöktun geislamengunar í sjó við Ísland? Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á geislamengun í sjó við landið? Ef slíkar rannsóknir hafa ekki verið gerðar, hvaða rannsóknir hyggst ráðherra framkvæma?