149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Eitt er nokkuð víst, við verðum að breyta neysluvenjum okkar ef við ætlum að ná einhverjum árangri í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar. Og til að eiga einhverja möguleika á því að ná árangri í þessu stærsta sameiginlega verkefni mannkyns þarf vilja almennings til breytinga og pólitískan vilja og kjark stjórnvalda. Mér finnst að stefna íslenskra stjórnvalda megi vera mun djarfari í þessum efnum. Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum þarf að vera uppfull af verkefnum sem við sjáum að skili árangri þannig að fólk sé tilbúið til að leggja á sig vinnuna. Sumt af því sem við verðum að gera getur tekið á, því að það krefst þess að við breytum okkur sjálfum og því sem við erum vön að gera.

Eitt verkefni, sem ekki er eitt af þeim erfiðu, er að stjórnvöld hvetji til aukinnar framleiðslu á íslensku grænmeti. Athuganir sem gerðar hafa verið fyrir Samband garðyrkjubænda sýna að kolefnisspor íslensks grænmetis er allt niður í 26% af því sem innflutt grænmeti skilur eftir sig. Að meðaltali er það um helmingslosun, íslenskri framleiðslu í hag. Þetta eitt sýnir að mikill umhverfisávinningur væri af aukinni innlendri framleiðslu á grænmeti. Alla jafna má reikna með að kolefnisspor matvæla úr jurtaríkinu sé mun minna en úr dýraríkinu.

Stefna stjórnvalda miðar við að búið verði að kolefnisjafna landið fyrir ákveðinn tíma. Það verður ekki gert nema með víðtækum og margvíslegum aðgerðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist það koma til greina að fjármagna hvatningu til þess að auka grænmetisframleiðslu á Íslandi sem part af áætlun í loftslagsmálum.