149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég er þeirrar skoðunar og deili henni með þingmanninum að ekki bara er framleiðsla íslensks grænmetis í þessu samhengi loftslagsmála mikilvæg, heldur ekki síður það að neyta grænmetis. Þar getur munað heilmiklu að breyta bara örlítið um mataræði. Það eru vissulega margir sem hafa tekið upp nýjan lífsstíl og gerst vegan eða grænmetisætur, sem er hið besta mál, en svo eru aðrir sem hafa kannski minnkað við sig í kjötáti. Allt skiptir þetta máli.

Varðandi það að fjármagna einhvers konar hvatningu til framleiðslu íslensks grænmetis þá finnst mér alveg koma til greina að skoða það. Ég veit ekki nákvæmlega hvers konar hvatningu hv. þingmaður á við en hún getur náttúrlega verið margs konar. Hún getur snúið m.a. að neytendum en náttúrlega ekki síður að framleiðendum sjálfum. Hvatning getur líka falist í opinberum stuðningi eða afsláttum, stundum hefur það verið nefnt út af rafmagni og öðru slíku sem fer til innlendrar garðyrkjuræktar. Þetta eru allt atriði sem hafa verið rædd heilmikið á undanförnum árum. Mér finnst spennandi að skoða þetta en við þurfum að ræða hins vegar aðeins betur hvað felst í hvatningu. Við getum gert það síðar.