149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:56]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á áðan er að ýmsu leyti mjög góð töluleg aukning í fjármálaáætluninni hvað varðar loftslags- og umhverfismál, sem er mjög gott. Það er líka mjög gott að sjá að peningarnir virðast fylgja að einhverju leyti og auðvitað mætti gera betur, en mér sýnist á öllu að hæstv. ráðherra hafi staðið sig mjög vel í því að búa til góða áætlun.

Mig langar til að koma aðeins inn á mælikvarðana — vegna þess að auðvitað væri besta áætlun í heimi gagnslaus ef við gætum ekki mælt árangurinn af henni. Ég hef svo sem gagnrýnt það áður að í loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar eru 34 tölusettir liðir sem mikilvægu tölurnar vantar í rauninni við, þ.e. hversu mikils samdráttar á losun koltvísýrings er nákvæmlega að vænta vegna þeirrar aðgerðar. Í fjármálaáætluninni er talað um að ljúka þeim 34 aðgerðum, sem er ágætt, en við höfum ekki enn þá neitt mat á því hverju það raunverulega skilar.

Að sama skapi er talað um að auka fjölda friðlýstra svæða úr 114 í 145 fyrir árið 2020 og í 165 fyrir árið 2024. Það er bara flott. En friðlýst svæði gætu verið frekar lítil, það væri svo sem hægt að friðlýsa bakgarðinn hjá mér. Ég veit ekki hvort hússjóðurinn eða húsfélagið tæki vel í það. Það gagnast ekki mjög mikið og við verðum kannski að ræða aðeins um stærðina, heildarhlutdeild landsins sem færi undir slík svæði. Vísa ég í tillögu E.O. Wilsons líffræðings sem talaði fyrir því að vernda hálfa jörðina og þá gætum við miðað við 50%.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Getum við ekki fengið aðeins betri mælikvarða, bæði á losun koltvísýrings annars vegar og hins vegar hvað varðar það magn lands sem við ætlum að vernda?