149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[21:59]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir það sem ég ætla að fá að nefna núna í framhaldi af umræðunni áðan, ást hans til mín og þakka ég honum hlý orð í minn garð. Þannig að ástin er greinilega að aukast í þessu herbergi, það er gott.

Nema hvað, varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um hver samdrátturinn yrði sem þá kæmi í kjölfar þeirra aðgerða sem settar eru fram í aðgerðaáætluninni, þá er það alveg hárrétt að ekki er búið að meta það, enda var það alltaf meiningin að gera það eftir fyrsta áfanga áætlunarinnar sem kom út í fyrrahaust. Við erum því að vinna að þessu.

Það er auðveldara að meta þetta fyrir sumar aðgerðir en aðrar. Ég tek sem dæmi að það er sennilega auðveldara, ef menn eru t.d. að endurheimta votlendi eða ákveðið marga hektara af landi, að geta sagt til um hversu mikið það er, en að meta ýmsar aðgerðir, eins og t.d. fræðslu, sem er hreinlega ekki hægt að setja samdráttartölu á. Þetta fer því svolítið eftir aðgerðum hvað hægt er að gera.

Til að koma að friðlýstu svæðunum þá er það alveg hárrétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni, að það að setja fram tölu, jú, það er gott og vel. Það sem við erum náttúrlega að miða við þarna eru líka ákveðnar áætlanir sem nú þegar eru til staðar og við erum að vinna eftir, þ.e. rammaáætlun. Þar eru ein 18 svæði, ef ég man rétt. Síðan eru ein 20 svæði eða svo undir gömlu náttúruverndaráætluninni og sum af þeim svæðum eru afmörkuð. Önnur eru mjög stór landsvæði. Svo nefni ég náttúrlega sérstaklega áformin um miðhálendisþjóðgarð sem myndu koma okkur allnálægt þeirri 50% tölu sem hv. þingmaður, svona í heildina fyrir allt landið, nefndi í máli sínu.