149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:01]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta svar. Það er auðvitað svo að maður gerir ekki ráð fyrir að allt verði mælanlegt og það er ákveðin áhætta þegar fólk heimtar að allt sé mælanlegt. En auðvitað væri gott að fá þessa mælikvarða. Það væri því ágætt að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvort við getum átt von á því fyrir næstu fjármálaáætlun, að ári, að það verði til einhvers konar líkan eða alla vega eitthvað sem er nokkuð í áttina að því að geta mælt helstu aðgerðirnar, ásamt því hvort einhverjar líkur séu á að við getum klárað miðhálendisþjóðgarðinn núna í haust. 45% af landinu yrði verndað, ef mig misminnir ekki.

Svo að lokum úr því að ég er að knýja fram loforð, sem ég veit ekki hvort raunhæft sé að ætla að staðið verði við. Gæti hæstv. ráðherra reynt að slá á einhverja tölu um hversu mikið af votlendi væri mögulegt að endurheimta innan þess ramma sem er í fjármálaáætluninni, kannski í prósentum eða hekturum talið?