149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Ég get að ýmsu leyti tekið undir ánægjuraddir þingmanna um að það er vissulega gott að sjá að verið er að auka útgjöld til umhverfismála og náttúruverndar á ýmsum stigum. Ég fæ mig samt ekki til neinna gífuryrða eða stórtækra hrósyrða því að mér finnst við enn þá vera með dálítið kaþólska nálgun, ef við getum sagt sem svo, á umhverfismálin. Við höfum ákveðið að fjölga ferðum okkar til prestsins til syndaaflausnar en um leið stórauka ferðir okkar á öldurhús bæjarins og jafnvel lengja dvalartíma þar í leiðinni. Við byggjum hér á hagkerfi þar sem við t.d. aukum lítillega við stuðning við skógrækt eða endurheimt votlendis en niðurgreiðum á sama tíma kjötframleiðslu alveg gríðarlega mikið með tilheyrandi sótspori. Við byggjum hagvöxt okkar að mörgu leyti á stóraukningu í alþjóðaflugi með gríðarlegu sótspori, við finnum varla verra sótspor hjá okkur persónulega en einmitt þegar við fljúgum. Við erum þjóðfélag með gríðarlega hátt neyslustig en alveg ótrúlega lélega frammistöðu í endurvinnslu.

Að frátalinni þeirri hugmynd sem hefur kannski verið viðruð hérna, að við efnum bara til stórátaks í að gera þjóðina vegan, þá velti ég fyrir mér: Hvað getum við gert til að vega á móti þessu? Ég hefði áhuga á að heyra mat hæstv. ráðherra á því, t.d. hvað varðar alþjóðaflugið. Hvenær kemur að skuldadögum okkar þar? Hvenær munum við þurfa að stórauka metnað okkar í einhvers konar kolefnisjöfnun eða að draga úr losun okkar vegna flugsins? Ég kem kannski að fleiri þáttum í síðari ræðu.