149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa góðu punkta sem hann kemur með og kannski ekki síst hvað varðar alþjóðaflugið. Það er ljóst að á heimsvísu og ekki síður hér á Íslandi hefur það aukist gríðarlega á undanförnum árum. Það er kannski ákveðin þversögn fólgin í því að á sama tíma og flugið hefur verið mjög mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf þá eykur það líka sótspor okkar.

Á hinum alþjóðlega vettvangi er núna unnið að alþjóðlegu samkomulagi sem lýtur að alþjóðaflugi. Ég man ekki hvort það er 2020 eða 2021 sem stefnt er að því að slíkir samningar verði tilbúnir. Ég myndi taka undir það með þingmanninum að manni finnst það náttúrlega svolítið seint. Þetta er eitthvað sem manni finnst að hefði átt að vera komið eiginlega miklu fyrr og þessu hefði átt að sinna ásamt mörgum þeim mikilvægu málum sem tekið er á í Parísarsamkomulaginu m.a. En þetta er svona, þessir hlutir gerast einn af öðrum á hinum alþjóðlega vettvangi.

Það sem við getum hins vegar gert í millitíðinni, ef við getum sagt sem svo, þá er ekkert sem á að stoppa okkur í því, bæði sem einstaklinga en líka að fyrirtæki setji metnaðarfyllri markmið um að draga úr losun með öllum þeim tæknibreytingum sem þau geta komið á. Ef ég man rétt þá held ég að Icelandair hafi tekist að draga úr losun um 5% á einhverjum árum með því að skipta út ákveðnum tæknibúnaði. Svo er það náttúrlega að setja sér markmið um kolefnishlutleysi og vinna að því að ná því með því að koma sjálf með aðgerðir en veita líka viðskiptavinum sínum tækifæri til að gera það og kolefnisjafna ferðir sínar. Það geri ég persónulega.