149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Frú forseti. Já, ég held að þar liggi kannski áhyggjur mínar, þegar verður farið að taka á fluginu þá reynir í alvöru á hversu sjálfbær vöxtur okkar í ferðaþjónustu mun reynast, þegar sá kostnaður verður lagður á flugið sem samsvarar umhverfiskostnaði þess. Flugferðir verða væntanlega talsvert dýrari í framtíðinni.

Það er líka þessi viðhorfsbreyting sem við sjálf þurfum að tileinka okkur. Það dugir okkur ekki endalaust að kaupa okkur syndaaflausn með því að auka skógrækt eða fylla upp í skurði. Við þurfum að draga úr losun og við þurfum að beita þeim hagrænu hvötum sem við þekkjum. Við þurfum að skattleggja mengun. Við komumst ekkert á áfangastað öðruvísi. Við þurfum að vera óhrædd við að skattleggja myndarlega losun af völdum jarðefnaeldsneytis hvar sem hennar verður vart. Síðast en ekki síst verðum við að gera miklu betur í hringrásarhagkerfinu eða endurvinnslunni. Þar hvet (Forseti hringir.) ég eindregið hæstv. ráðherra til að efla verulega samstarf við sveitarstjórnarstigið þar sem manni sýnist metnaðarleysið vera heldur mikið miðað við (Forseti hringir.) hvar við ættum að vera í þeim efnum.