149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil gera að umtalsefni það sem hv. þingmaður kom inn á og snýr að umhverfiskostnaði. Það er sá kostnaður sem fellur til og er oft ekki tekinn inn í jöfnuna, það sem á ensku kallast „externalities“. Það er eitthvað sem ég tek undir með þingmanninum að við þurfum að taka inn í jöfnuna þegar við skoðum þessi mál.

Varðandi úrgangsmálin þá er ég að skoða það í fyrsta lagi að skylda flokkun. Það er ekki þannig í dag. Það myndi ná til úrgangs frá heimilum en líka og ekki síður frá fyrirtækjum. Þetta held ég að sé gríðarlega mikilvægt atriði. Það þarf líka að skoða hvort ekki megi samræma betur flokkun á milli sveitarfélaga. Við flokkum ekki með sama hætti í öllum sveitarfélögum. Það væri ágætt held ég fyrsta skref en þau eru mörg önnur, m.a. er til skoðunar (Forseti hringir.) núna urðunarskattur því það er allt of ódýrt að urða eins og staðan er í dag.