149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um fjármálaáætlun til næstu ára og er umhverfis- og auðlindaráðherra til svara. Ég sé hvergi í framtíðaráætluninni minnst á brunahólf skóga. Við höfum orðið vitni að því úti um alla Evrópu og í Ameríku að skógar brenna og það virðist vera náttúrulögmál að engum detti í hug að búa til brunahólf.

Við teljum kannski á Íslandi að engin hætta sé á því að heilu skógarnir brenni en það geta komið þurrkatímabil, því miður. Það virðist engin hugsun eða stefna vera í þeim málum, a.m.k. er það ekki í áætluninni sem ég var að lesa.

Við vitum að þetta gildir líka um sinubruna og mosa og við vitum hvað gerðist á sínum tíma á Snæfellsnesinu þar sem allt varð stjórnlaust með tilheyrandi skaða fyrir bæði dýralíf og annað. Ég vil fá að vita af hverju það er ekkert um þetta í áætluninni.

Síðan er það flokkun sorps, sem er í algjörum ólestri. Ég bý í Hafnarfirði og það er því miður engin stefna í að flokka sorp á nokkurn hátt nema rétt blöðin og svo fer allt hitt í sömu tunnuna. Það er alveg með ólíkindum.

Svo er það í sambandi við ungu mótmælendurna sem mæta alltaf hérna í hádegi á föstudögum. Ég efast um að þau séu mjög sátt við þessar framtíðaráætlanir í umhverfismálum. Þau vilja og heimta mun meira. Er hæstv. ráðherra ekki sammála um að við ættum að segja að þetta sé aðeins fyrsta skrefið á þessu ári en svo verðum við að gefa vel í næstu árin?