149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Þeir koma títt upp í ræðupúlt núna, Guðmundarnir Ingarnir. Það er skemmtilegt.

Rétt aðeins varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um hættu á brunum, bæði hvað varðar skógrækt og síðan aðra almenna gróðurelda. Mér skilst að sveitarfélögin og Skógrækt ríkisins hafi verið að vinna að því kortleggja hvar mestu hætturnar eru og hvernig megi bregðast við þeim. Ég sé líka tækifæri með nýja skógræktarfrumvarpinu sem nú er til umfjöllunar í þinginu, að þar geti komið til í gegnum landsáætlanir og aukið samstarf við sveitarfélög með svæðisbundnum áætlunum að taka þau málefni inn í, sem eru mjög mikilvæg.

Nefndir voru Mýraeldarnir, sem er akkúrat mín sveit. Það eru ein 13 ár síðan þeir áttu sér stað og var eiginlega ótrúlegt að þeir höfðu mun minni áhrif en var talið, sem betur fer. Engu að síður var það kannski ákveðin gæfa að ekki yrði neitt tjón á mannvirkjum og öðru slíku.

Ég gæti farið í löngu máli yfir nákvæmlega hvar þetta fór yfir og við hvaða læki það stoppaði og hvaða bændur það voru sem þarna lögðu lóð á vogarskálarnar. En ég ætla að sleppa því.

Síðan hefur komið fram í umræðunni í dag þetta varðandi úrgangsmálin. Sums staðar er flokkun sorps í góðu lagi en annars staðar ekki. Það sem ég hef lagt áherslu á er að skylda úrgangsflokkun, bæði frá heimilum og frá fyrirtækjum, og reyna að ná meiri samræmingu á milli sveitarfélaga.

Varðandi síðasta atriðið sem snýr að loftslagsmótmælum þá fagna ég slíkum aktívistum og hlusta eftir þeim og hef m.a. hitt fulltrúa þeirra ágætu samtaka sem þarna hafa komið.