149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:16]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég er svo heppinn að vera þunnhærður og nærri því orðinn sköllóttur og þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvers konar gel ég nota, sem betur fer segi ég bara því að ég er ekki viss um að ég myndi vilja fara þá leið sem hv. þingmaður nefndi.

Að því sögðu tek ég undir að það að hrósa fólki er oft og tíðum leið til árangurs. Það eru satt best að segja ýmis verðlaun í gangi í umhverfismálum, m.a. á degi umhverfisins sem rennur upp í apríl og lýtur að umhverfisstarfi fyrirtækja og á degi íslenskrar náttúru á haustin sem lýtur að bæði blaðamannaverðlaunum fyrir umfjöllun um náttúruverndarmál og líka fyrir einstaklinga. Svo erum við að þróa í tengslum við tillögur um aðgerðir í plastmálum ákveðna viðurkenningu á því sviði sem við munum væntanlega tilkynna um seinna og ætla ég að leyfa þingmanninum að bíða með það af því að tími minn er búinn.