149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri nú í stuttu máli grein fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2020–2024 varðandi þau málefnasvið sem heyra undir mig sem utanríkisráðherra, þ.e. málefnasvið 4, utanríkismál, og 35 alþjóðleg þróunarsamvinna.

Helstu verkefni sem falla undir þessi málefnasvið eru annars vegar alþjóðasamstarf, öryggis- og varnarmál, utanríkisviðskipti, borgaraþjónusta og þjóðaréttur og hins vegar þróunarsamvinna og mannúðarmál.

Meginmarkmið utanríkisþjónustunnar er að tryggja að þjóðin sé sjálfstæð, örugg, frjáls, búi við hagsæld og njóti mannréttinda. Hlutverk hennar er að gæta í hvívetna hagsmuna lands og þjóðar á alþjóðavettvangi á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar og veita skilvirka borgaraþjónustu.

Utanríkisstefna Íslands byggir á skýrum gildum um lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, sjálfbæra þróun og friðsamlegar lausnir þar sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi.

Ég vek athygli á því að þróun framlaga til þessara tveggja málefnasviða verður með nokkuð ólíkum hætti á tímabilinu. Annars vegar er gert ráð fyrir að framlög til utanríkismála lækki úr 11,8 milljörðum kr. í 10,7 milljarða kr. á tímabilinu, eða um ríflega 1 milljarð. Hins vegar hækki framlög til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu úr um 6 milljörðum kr. í eina 8,8 milljarða kr., eða um liðlega 2,7 milljarða kr.

Ég sný mér fyrst að málefnasviði 4, utanríkismál, en undir það fellur utanríkisþjónustan. Skýringarnar á lækkun framlaga til utanríkismála á tímabilinu eru einkum tvær, auk aðhalds á tímabilinu. Annars vegar lækka framlög til uppbyggingarsjóðs EES og hins vegar skýrist lækkunin af tímabundnum verkefnum sem lýkur á tímabilinu. Hér er um að ræða formennsku í Norðurskautsráðinu, setu Íslands í mannréttindaráðinu og styrkingu utanríkisþjónustunnar til undirbúnings Brexit, auk fleiri smærri verkefna.

Framlög til annarra verkefna standa ýmist í stað eða lækka vegna aukins aðhalds. Fyrir utanríkisþjónustuna verður talsverð áskorun að tryggja farsæl lok tímabundinna verkefna og takast á við ýmis brýn verkefni við þær aðstæður. Meðal verkefna fram undan eru formennska Íslands í Norðurskautsráðinu og ráðherranefnd Evrópuráðsins og hagsmunagæsla vegna útgöngu Bretlands úr ESB. Til viðbótar er vert að nefna framboð Íslands til stjórnarsetu í UNESCO fyrir hönd Norðurlandanna árin 2021–2025.

Áfram verður unnið að bættri framkvæmd EES-samningsins í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar með því að styrkja stöðu fagráðuneyta og sendiráðsins í Brussel. Ísland er herlaus þjóð sem tryggir öryggi sitt og varnir með virku alþjóðlegu samstarfi og aðild að Atlantshafsbandalaginu. Varnarsamningurinn við Bandaríkin er meginstoð í stefnu um öryggi og varnir landsins sem og samstarf aðildarríkjanna í Atlantshafsbandalaginu og grannríkja. Í þessu samstarfi ábyrgjumst við rekstur íslenska loftvarnakerfisins, eftirlitskerfa með hafsvæðum, samskiptakerfa og annarra mannvirkja og búnaðar á Íslandi.

Helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir í varnarsamstarfinu er uppsöfnuð viðhaldsþörf varnarmannvirkja sem er dragbítur á getu okkar til að standa við öryggis- og varnarskuldbindingar okkar. Í ljósi breyttrar stöðu öryggis- og varnarmála á Norður-Atlantshafi er mikilvægt að aðstaða og búnaður sé til staðar á Íslandi fyrir samstarfsþjóðir. Á þetta bæði við um mannvirki og gistiríkjastuðning, þar með talið loftrýmisgæslu, æfingar eða eftirlit með kafbátaferðum. Í fjármálaáætluninni, sem liggur hér fyrir Alþingi, er ekki gert ráð fyrir sérstökum fjárveitingum vegna þessara framkvæmda. Unnið er að greiningu og forgangsröðun nauðsynlegra viðhaldsframkvæmda og verður niðurstaða greiningarinnar, ásamt kostnaðaráætlun, lögð fram á næstu vikum.

Ég sný mér nú að málefnasviði 35 alþjóðleg þróunarsamvinna, sem er nýtt málefnasvið sem var áður einn af málaflokkum á málefnasviði 4 utanríkismál. Alþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu og mikilvægur hlekkur í þjóðaröryggisstefnu Íslands. Með virkri þátttöku í þróunarsamvinnu leitast Ísland við að uppfylla pólitískar, lagalegar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna.

Framlög til málefnasviðsins aukast um ríflega 2,7 milljarða á tímabilinu, eða úr ríflega 6 milljörðum kr. í um 8,8 milljarða kr. í lok áætlunarinnar. Aukningin er fyrst og fremst komin til vegna stefnu stjórnvalda í málefnum um þróunarsamvinnu, en gert er ráð fyrir að framlög sem hlutfall af vergum þjóðartekjum hækki úr 0,29% árið 2020 í 0,35% árið 2022.

Meginverkefni sviðsins er tvíhliða og fjölþjóðleg þróunarsamvinna í samstarfi við samstarfslönd og svæði, fjölþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök með mannréttindi, jafnrétti og sjálfbærni að leiðarljósi í þróunarstarfi Íslands sem styðst við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Lögð er sérstök áhersla á að sérþekking Íslands nýtist sem best í baráttu gegn fátækt, t.d. á sviði jarðhitaþróunar og sjávarútvegs. Nýjum samstarfssjóði í tengslum við atvinnulífið er ætlað að styrkja samstarf vegna fyrirtækja sem stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum hagvexti í þróunarríkjum. Í nýrri þróunarsamvinnustefnu fyrir tímabilið 2019–2023 sem nú liggur fyrir Alþingi (Forseti hringir.) má sjá helstu markmið Íslands í þróunarsamvinnu. Utanríkisþjónustan er ein sú minnsta í Evrópu, enda þjóðin fámenn. (Forseti hringir.) Verkefnin taka ekki öll mið af höfðatölu.

Ég held að ég komist ekki lengra með ræðuna, virðulegur forseti.