149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Það er svo sem ekkert nýtt eða óvænt sem kom fram í ræðunni, upptalning á verkefnum fyrst og fremst, enda er það kannski í stíl við fjármálaáætlunina sem er fyrst og fremst upptalning á stefnumiðum ríkisstjórnarinnar. Það er ekki verið að brjóta niður á málefnasviðin mjög nákvæmt, þ.e. í hvað peningarnir eiga að fara sem þarna eru nýttir. Hins vegar kemur réttilega fram hjá hæstv. ráðherra að það er verið að skera niður. Það er verið að minnka þá fjármuni sem eru settir í utanríkisþjónustuna, sem ég held að sé mjög slæmt á sama tíma og ráðherra talar um hversu lítil þjónustan er.

Land eins og Ísland, sem er lítið eyríki í miðju Atlantshafi, þarf að vera með sterka utanríkisþjónustu. Þess vegna er sorglegt að sjá að það er ekki mikill metnaður fyrir því að efla hana í þessari áætlun, nema þarna eigi eftir að útfæra einhverja hluti sem við einfaldlega sjáum ekki hér.

Mig langar að spyrja ráðherra — og byrja á einu smámáli, kannski — því á bls. 181 í kaflanum um stefnumótun málefnasviða, Framtíðarsýn og meginmarkmið, er texti um grunngildi þjóðarinnar. Hefur þjóðin samþykkt að setja sér einhver grunngildi eða er hér fyrst og fremst verið að ræða um grunngildi utanríkisþjónustunnar?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í bls. 183 þar sem rætt er um öfluga framkvæmd EES-samningsins. Ég átta mig ekki á því hvernig hún á að vera „öflug“. Snýst þetta ekki um það að hún eigi að vera rétt, fyrst og fremst? Að við eigum að sinna þessum samningi eins og okkur ber?

Síðan langar mig að spyrja því að á sömu blaðsíðu eru menn býsna góðir með sig af tímabundinni setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þar er líka talað um að efla eigi málsvarshlutverkið og þar er Strassborg nefnd. Ísland er líklega eina landið sem ekki er með fastan fulltrúa eða sendiráð, eða hvað menn kalla þetta, starfsmann á staðnum. Því er sinnt af góðu fólki frá París, ef ég veit rétt. Það sama má segja um ÖSE í Vín. Þar er gott fólk sem sinnir því starfi. (Forseti hringir.) En er ekki samt tvískinnungur í því að stæra sig af setu í mannréttindaráðinu og hafa svo ekki metnað til að efla þessar stofnanir?