149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að ekki sé beint samhengi milli fjárframlaga og árangurs. Ég held að það séu mörg dæmi þess, eiginlega bara mjög mörg. En varðandi það sem hv. þingmaður spyr um — og ég þakka honum fyrir ræðuna — held ég að þegar við tölum um grunngildi þjóðarinnar hafi ég metið það þannig að um þau væri góð sátt. En það er sjálfsagt að ræða það ef menn hafa áhuga á því.

Varðandi öfluga framkvæmd EES-samningsins er hv. þingmaður að koma að stóru máli sem ég hef lagt mikla áherslu á og núverandi ríkisstjórn. Það var eitt það fyrsta sem ég gerði sem utanríkisráðherra að setja af stað vinnu um aukna hagsmunagæslu á sviði EES. Þegar við sóttum um aðild að ESB tókum við niður þá hagsmunagæslu að stórum hluta sem við höfðum, sem felst einfaldlega í því að við höfum haft fulltrúa úr öllum fagráðuneytum í Brussel sem eiga að vakta mál sem þangað koma, sérstaklega á fyrstu stigum því þá getum við haft mest áhrif. Auðvitað getum við gert ákveðna hluti eftir það. En eitt er alveg öruggt að ef við erum ekki á svæðinu og erum ekki að vinna heimavinnuna okkar sjálf þá mun enginn gæta okkar hagsmuna. Það er það sem hér er verið að vísa í þegar talað er um öfluga framkvæmd EES-samningsins.

Sömuleiðis setti ég af stað vinnu undir forystu Björns Bjarnasonar við að skoða þessi mál, m.a. varðandi framkvæmdina. Ég er þeirrar skoðunar að við getum gert mun betur þegar kemur að framkvæmd EES-samningsins — og ég get farið betur í það seinna í umræðunni. Mannréttindaráðið er í Genf og við erum með prýðilega fastanefnd þar og sendiskrifstofu. Væntanlega er hv. þingmaður að vísa til Evrópuráðsins í Strassborg. Við þurfum að forgangsraða hlutum en hvað varðar mannréttindaráð er það prýðilega mannað og ég held að við getum verið mjög stolt af því sem við höfum gert fram til þessa og ég á ekki von á því að það breytist.

Varðandi Vín: Þótt við höfum tekið niður sendiráðið erum við áfram með fastanefnd og ég held að við höfum sinnt því hlutverki alveg prýðilega. En ég held að það hafi verið skynsamlegt skref að loka sendiráðinu í Vín.