149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki heyrt eða verið að hlusta á það sem ég var að spyrja hann út í. Ég var að velta fyrir mér hvort það gæti verið að það væri smámótsögn í því að stæra sig af setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og hins vegar að sinna ekki sem skyldi starfsemi okkar í Strassborg og Vín. Þá er ég ekki að gera lítið úr því frábæra starfsfólki sem er að vinna þar fyrir okkur. Þetta snýst ekkert um það. Það snýst einfaldlega um það að við erum eina ríkið, eftir því sem ég best veit, sem er ekki í Strassborg með sínar skrifstofur og sinnir þessu þaðan. Og við höfum líka skorið niður í Vín — á sama tíma og við erum að berja okkur á brjóst með setu í mannréttindaráðinu, tölum um að við séum talsmenn mannréttinda og sinnum um leið ekki sem skyldi, með þeim hætti sem ég er að lýsa hér, þessum stóru verkefnum okkar. Ég hefði haldið að til að standa undir nafni ættum við að vera með fullmannaðar skrifstofur á báðum þessum stöðum.

Það er rétt hjá ráðherra að oft og tíðum þarf kostnaður ekki að endurspegla árangur. En það er hins vegar ljóst að þegar við erum með litla utanríkisþjónustu, erum með land sem þarf á miklum samskiptum við umheiminn að halda, þá getum við ekki horft á að verið sé að draga saman seglin þar, eins og ráðherrann er að leggja til.