149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:31]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það er bara engin mótsögn í þessu. Það er enginn, mér vitanlega, sem hefur haldið því fram, allra síst utan lands. Það hefur verið minni umræða um það sem höfum gert í mannréttindaráðinu hér heima en erlendis. Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að það eru í fyrsta skipti tekin fyrir — með þeim hætti sem við lögðum upp með það — málefni Sádi-Arabíu, mannréttindabrotin þar. Það er í fyrsta skipti, eftir að við Íslendingar höfðum forgöngu um það.

Mannréttindasamtök hafa opinberlega farið sérstaklega yfir framgöngu Íslands hvað varðar mannréttindaráðið í Genf. Það er ekki eitthvað sem kemur frá stjórnvöldum hér eða ríkisstjórninni, það er frá mannréttindasamtökum sem hafa vakið sérstaka athygli á því hvað við höfum staðið okkur vel hvað það varðar.

Þannig að það er engin mótsögn í því að standa sig vel í mannréttindaráðinu og sinna þessu bæði í Strassborg og í Vín. Það kom ekki fram hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) nein málefnaleg gagnrýni á hvað við erum að gera þar. Við leitum alltaf leiða til að gera hluti með sem allra hagkvæmustum hætti og munum gera það áfram.