149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki af hverju er verið að skamma mig fyrir þessa áætlun. Þetta er eitthvað sem er lagt fram og alveg sama hvaða fjármunir koma til málaflokksins þá reynir maður að fara eins vel með þá og mögulegt er. Það er alltaf hægt og málaflokkurinn er þess eðlis að maður getur nýtt allar þær krónur sem í hann koma. Hér er verið að forgangsraða í ríkisfjármálum og menn hafa sett langmestu aukninguna til heilbrigðis- og félagsmála, sérstaklega til málefna lífeyrisþega. En einn málaflokkur hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum og það eru framlög til þróunarmála. Þar er alveg gríðarleg aukning. Mér er til efs, ég hef auðvitað ekki borið það saman, að nokkur þjóð hafi aukið þetta jafn hratt og við Íslendingar erum að gera. Frá 2011 er aukningin að raunvirði upp á 91,4%, hvorki meira né minna. Það er verkefni okkar að nýta þessa fjármuni sem allra best.

Ég tel eðlilegt og ég myndi telja að það væri betra að hafa uppbygginguna þannig í fleiri ráðuneytum en ekki bara í utanríkisráðuneytinu að við setjum ákveðna fjármuni í það þegar við tökum okkur ákveðin verkefni. Ég nefni formennsku í Norðurskautsráðinu, mannréttindaráðinu, formennsku í Norðurlandasamstarfinu og Norðurlanda- og Eystrasaltsríkjasamstarfinu svo eitthvað sé nefnt. En þegar þeim verkefnum er lokið þá er þeim lokið. Maður fer fram á að fá þá fjármuni til að nýta í verkefnin og þegar þeim er lokið þá eðli málsins samkvæmt dragast þeir fjármunir saman.

Síðan eru ákveðnir hlutir sem ég benti á í framsöguræðu minni sem við þurfum að skoða sérstaklega. En stóra einstaka málið er að við ákveðum í næstu fjárlögum hvað fer til (Forseti hringir.) málaflokksins og svo er lykilatriði að reyna að fara vel með þá fjármuni eins og mögulegt er.