149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:39]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er vissulega margt gott og til fyrirmyndar í fjármálaáætlun um utanríkismál, til að mynda áframhaldandi aukið vægi á auðlinda- og umhverfismál í utanríkismálum og verkefni á alþjóðavísu er varða loftslagsbreytingar og Ísland hefur skuldbundið sig til að sinna.

Mig langar hins vegar að taka fram að það er umhugsunarefni að fjárframlög til utanríkismála muni dragast saman á tímabilinu sem um ræðir. Hér er dregið úr fjárframlögum til uppbyggingarsjóðs EES á tímabilinu, sem ég myndi gjarnan vilja fá útskýringar á hjá hæstv. ráðherra, og svo mun formennska okkar í Norðurskautsráðinu renna sitt skeið. Þó svo að þau verkefni verði ekki enn við lýði og útskýri samdráttinn hefði verið ánægjulegt að sjá samt áframhaldandi aukningu í utanríkismál og kannski sérstaklega, eins og var talað um fyrr í kvöld, í umhverfis- og loftslagsþáttinn á alþjóðasviðinu, sem mun bara vaxa og kalla á meiri fjárútlát, til að við getum tekið þátt í því alþjóðlega stórverkefni sem loftslagsbreytingar eru.

Svo ætla ég líka að fá að nefna enn og aftur hversu mikilvægt ég tel það vera varðandi áherslur okkar á mannréttindamál sem eina af grundvallarstoðum okkar í utanríkisstefnu þjóðarinnar að styrkja viðveru Íslands við Evrópuráðsþingið í Strassborg til að við höfum þar starfandi fastanefnd. Eins og hæstv. ráðherra veit erum við eina þjóðin af 47 sem eiga sæti í Evrópuráðsþinginu sem ekki er með fastanefnd þar, ólíkt því sem var fyrir hrun og ákveðið var að endurvekja 2016. Það eru vissulega vonbrigði að sjá ekki þá ákvörðun í fjármálaáætluninni þó að vissulega hafi verið bætt í þann hlut utanríkisþjónustunnar frá því að við ræddum þau fyrir ári síðan með því að tilnefna sendiherra sem sinnir málefnum Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins. Ég legg áfram áherslu á það við hæstv. ráðherra hversu mikilvægar grundvallarstoðir Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið eru á sviði mannréttindalaga og lýðræðis.

Í maí 2018 voru leyfisveitingar vegna hergagnaflutninga með borgaralegum loftförum færðar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu yfir til utanríkisráðuneytisins. Hér er staðhæft á blaðsíðu 185 að ólíklegt sé að ráðuneytið nái að sinna þeim verkefnum sem skyldi innan núverandi útgjaldaramma. (Forseti hringir.) Þetta þarfnast nánari útskýringa og óska ég eftir þeim hjá hæstv. ráðherra. Hvernig stendur á því að ráðuneyti utanríkismála þurfi á auknum fjármunum (Forseti hringir.) að halda til leyfisveitinga vegna hergagnaflutninga?