149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar og ætla að reyna að svara þeim. Fyrst af því að hv. þingmaður spyr um sveiflurnar í uppbyggingarsjóði EES þá er þetta gamli þróunarsjóður EES eða EFTA sem okkur bar samkvæmt EES-samningnum að borga í í fimm ár. Við erum búin að borga í hann í 25 ár og síðasti samningurinn sem var gerður um þetta var árið 2016. Ég veit ekki nákvæmlega af hverju það gerist en það eru sveiflur og þær eru mjög miklar t.d. á tímabilinu. Eins og ég skil það fer það eftir verkefnastöðunni á hverjum tíma. En við erum búin að skuldbinda okkur til að borga ákveðna upphæð, gerðum það 2016, og ef ég man rétt þurfum við að semja um það aftur á næsta ári.

Varðandi Norðurskautsráðið — og það er fleira, það er mannréttindaráðið og Norðurlandasamstarfið og annað slíkt — er hugsunin einfaldlega sú að við gerum áætlun um hvað þetta verkefni kostar og svo þegar því er lokið þurfum við eðli máls samkvæmt ekki að fylgja því eftir og þá er fjárveitingin tekin.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir Evrópuráðsþingið og hvernig þeim málum er fyrir komið. Síðan geta menn haft þá skoðun að við eigum að setja aukna fjármuni þangað og setja upp fastanefnd en það kostar fjármuni. Við höfum forgangsraðað eftir utanríkisþjónustu til framtíðar og lagt sérstaka áherslu á það. Aukningin sem við höfum fengið hefur nær eingöngu farið í þetta, annars vegar er aukin hagsmunagæsla varðandi EES, og ég held að það sé algerlega augljóst að full þörf er á því, og svo í verkefni eins og Brexit, sem er augljóslega líka mikilvægt.

Hvað varðar hergagnaflutningana voru ákveðnir fjármunir inni í samgönguráðuneytinu til að halda utan um þau mál vegna þess að bak við þetta eru ákveðnir einstaklingar, sérfræðingar, sem sjá um slíkt. Það hefur reynst þrautin þyngri að fá þá fjárveitingu yfir í utanríkisráðuneytið en verkefnið hefur farið þangað, þannig að það eru góð ráð dýr, (Forseti hringir.) hvað menn eigi að gera, því að það kostar peninga að halda utan um viðkvæman málaflokk eins og hergagnaflutningarnir eru.