149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:44]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og ætla mér ekki að tefja lengi við þau, enda gefa tvær mínútur og svo ein mínúta ekki mikið svigrúm til að ræða utanríkismálin. En mig langar í seinni ræðu að tæpa á þróunarsamvinnu og framlagi okkar til hennar. Vissulega er um að ræða aukningu í skrefum, sem er vel. Sú aukning kemur vel fram í krónutölum en við erum alltaf að miða okkur við hlutfall og það er mín skoðun að við eigum að halda því áfram og halda því á lofti. Aukningin er í samræmi við áætlun okkar um aukningu framlaga sem við settum okkur fyrir ansi mörgum árum síðan og erum við skuldbundin til að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um þróunarsamvinnuna. Ég ásamt fleirum er orðin ansi langeyg eftir því hvenær í ósköpunum við ætlum að ná þeim markmiðum sem við höfum skuldbundið okkur til að ná. Mig langar að heyra hæstv. ráðherra lýsa því yfir (Forseti hringir.) hvenær hann sjái það fyrir sér gerast og einnig þann hluta þróunarsamvinnunnar sem fellur undir móttöku hælis- og flóttamanna á Íslandi.

Svo langar mig að lokum, frú forseti, (Forseti hringir.) ég veit að forseti er farin að hringja hér, að hvetja hæstv. utanríkisráðherra til dáða. Þótt það komi fram á blaðsíðu 184 (Forseti hringir.) að við séum fámenn þjóð og séum með minnstu utanríkisþjónustu í Evrópu (Forseti hringir.) þá erum við samt sem áður (Forseti hringir.) þess megnug að halda úti öflugri utanríkisþjónustu (Forseti hringir.) sem tekið er eftir, (Forseti hringir.) eins og nýlegt dæmi um mannréttindaráðið og vinnu okkar varðandi Sádi-Arabíu (Forseti hringir.)