149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:47]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Forseti. Það er náttúrlega mjög margt sem þarf alltaf að ræða í utanríkismálunum og erfitt að velja fáa hluti, en kannski rétt að benda hæstv. utanríkisráðherra á að skuldbinding okkar til þróunarmála er talin samkvæmt hlutfalli af vergri landsframleiðslu en ekki í krónum.

Mig langar helst að koma inn á alþjóðaviðskiptamálin. Ég hjó eftir því í mælikvörðum um árangur í fjármálaáætluninni að gengið er út frá því að fríverslunarsamningum innan EFTA fjölgi aðeins um einn fyrir árið 2020 og einn til viðbótar fyrir árið 2024, á meðan tvíhliða samningar í rauninni tvöfaldast, verði fjórir fyrir árið 2024. Ég geri ráð fyrir því að þeir verði orðnir þrír samningarnir fyrir lok mánaðarins eða þar um bil, þ.e. út af Brexit.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Eru þetta skilaboð til okkar um einhvers konar brotthvarf frá útvíkkun á utanríkisviðskiptum okkar í gegnum EFTA, t.d. við lönd sem við erum í samningaviðræðum við eins og Indland og Mercosur-ríkin og ríki sem við ættum að vera í samningaviðræðum við, t.d. í Afríku og víðar? Er eitthvað sem við ættum að skilja í þessu varðandi útvíkkun samninga, jafnvel t.d. fjárfestingarsamninga?

Mörg ríki eru að vaxa og dafna og verða meiri og stærri hluti í viðskiptakerfinu og auðvitað eigum við að hafa góð tækifæri til að stunda viðskipti við þau. Því er nauðsynlegt að hafa aðeins nákvæmari sýn á það hvað gerist á næstu fimm árum út frá þessari fjármálaáætlun í þróun viðskiptasamninga. Ég verð að segja að mér þykja þessi viðmið ganga út frá heldur hóflegu og jafnvel metnaðarlausu markmiði.