149. löggjafarþing — 85. fundur,  27. mars 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[22:50]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að kenna mér varðandi þróunarmálin, hvort þetta sé eftir hlutfalli eða tölum. Bak við hlutföllin eru tölur. Það spyr enginn að því í Malaví þegar við byggjum þar nýjan vatnsbrunn eða skóla eða heilbrigðisstofnun hversu hátt hlutfallið er. Þetta snýst um það hvort við gerum þessa hluti og hvernig þeir nýtast. Ég held að við séum komin á þann stað að við setjum gríðarlega mikla fjármuni í þróunarsamvinnuna. Framlögin hafa hækkað gríðarlega mikið á undanförnum árum. Við eigum að taka umræðuna hér um það hvernig þau nýtast, hver eru markmiðin og hvaða árangri við erum að ná. Það er það sem við verðum dæmd af á endanum. Það er ekki hlutfallið heldur hvaða árangri þróunarsamvinnan skilar.

Varðandi meint metnaðarleysi í samningum um alþjóðaviðskipti þá veit ég ekki til hvers hv. þingmaður er að vísa til. Við höfum náð umtalsverðum árangri á undanförnum árum. Ég vek athygli á því að við erum t.d. búin að ná tvísköttunarsamningi við Japan og samningi um vinnuréttindi fyrir ungt fólk. Ég held að það hafi tekið 25 ár að ná þessum tvísköttunarsamningi sem hv. þingmaður vísaði ekki til en er mjög mikilvægur að hafa. Við vísum hér til fjárfestingarsamninga og gefum ekki neitt eftir í því að ýta eftir því að EFTA geri sína samninga. Við vorum að klára samninga við Indónesíu, sem er 260 milljóna þjóðfélag. Við ýtum svo sannarlega eftir því þegar kemur að Indlandi, en síðan eru aðrir aðilar, eins og ég nefndi hér, Japan, og vonandi munum við ná einhverjum árangri þar. Við erum búin að vinna mjög ötullega hvað það varðar. Við erum í fyrsta skipti að fara í efnahagssamráð við Bandaríkin, sem er kannski það stærsta sem er í gangi núna. Hvað kemur út úr því á eftir að koma í ljós. Svo sannarlega erum við að vinna ötullega og með háleit markmið hvað þetta varðar.

Hvað varðar viðmiðin í þessari (Forseti hringir.) áætlun þá er það nokkuð, sérstaklega í utanríkismálunum, sem við þurfum að þróa. Ég veit ekki hver er besta leiðin til að leggja upp viðmiðin þar.